Frábær veitingastaður og notaleg kvöldstund
Það er fátt skemmtilegra en að fara út að borða á góðum veitingastað. Eiga notalega kvöldstund í frábærum félagsskap og prófa nýja og framandi rétti í fallegu umhverfi.
Kröns er lítill veitingastaður sem býður upp á allt þetta og gott betur, falin perla á miðjum Laugaveginum sem enginn ætti að láta fram hjá sér fara.
Sjónarspil að horfa á kokkinn
Staðurinn er hlýlega innréttaður með viðarklæddum veggjum og notalegri lýsingu, ekki of stór og heldur ekki of lítill. Andrúmsloftið er vinalegt. Eldhúsið er opið og því auðvelt fyrir gesti að fylgjast með kokkunum og því sjónarspili sem þar fer fram.
Matseðillinn er skemmtilega uppbyggður og einfaldur og því auðvelt að velja sér rétti. Boðið er upp á tapas rétti sem tilvalið er að deila.
Skandinavískt eldhús
Matseðilinn samanstendur af ólíkum réttum. Þar er að finna hina hefðbundnu íslensku kjötsúpu, bruschettur undir ítölskum áhrifum, og humar taco rétt með japönsku mayo. Staðurinn eru undir áhrifum skandinavíska eldhússins auk evrópskrar matargerðalistar.
Fordrykkur sem kemur skemmtilega á óvart
Við byrjuðum kvöldið á Kröns á því að fá okkur fordrykkinn Krönsí, en drykkurinn inniheldur m.a. brennivín. Að óreyndu hefði ég aldrei trúað því að mér ætti eftir að þykja góður drykkur sem inniheldur brennivín. En Krönsí var æði, ferskur og seiðandi og kom ánægjulega á óvart.
Kokkar staðarins nýta gjarnan ferskasta hráefnið sem býðst hverju sinni. Kvöldið sem við vorum þar á ferð, hafði einn þjóninn til dæmis kippt með sér í vinnuna vænum skammti af skessujurt sem óspart var nýtt í m.a. fordrykkinn Krönsí.
Hörpuskel með rjóma, dillolíu, fíkjum og kavíar bragðaðist frábærlega, og var rétturinn fullkomnaður með eðal hvítvíni.
Bruschetta er réttur sem ég held alveg sérstaklega upp á og fæ mér oft og iðulega þegar ég fer út að borða. Hönd á hjarta, ég held ég hafi sjaldan smakkað betri bruschettu en þá sem Kröns bauð okkur upp á. Ricotta osturinn heimagerður og bragðið framandi og ferskt. Þá var verðið ótrúlega sanngjarnt miðað við hversu bústin bruschettan var, en rétturinn var einstaklega vel útilátinn. Fullkomið!
Mér finnst allt bragðast betur þegar þjónustan er fullkomin og þannig var það einmitt þetta kvöld. Það var eins og aukakrydd á hvern rétt að fá þægilega og nánast heimilislega þjónustu, þjónustu sem var á sama tíma einstaklega fagleg og fumlaus.
Bragðlaukarnir áttu fullt í fangi með að fanga léttreyktan lax með íslensku wasabi, en laxinn var borinn fram með ísköldu íslensku brennivíni sem skilaði dásamlegri lendingu eftir þægilega milt og ljúft bragðlaukaferðalag.
Þá bráðnaði langa með hunangsgljáðri gulrót í munni og nautatartar réttur var, rétt eins og staðurinn sjálfur, langt í frá niðurnjörfaður og ferkantaður heldur einstaklega sexý og fallega framborinn réttur sem ég mæli með að þið prófið. Ískaldur bjór sem drukkinn var með toppaði þennan frábæra rétt. Hér var á ferðinni fullkomin samsetning hráefna, reykt en samt ferskt, saltað en samt milt. Algjör negla.
Það sem mér fannst sérstaklega kósý við Kröns er að eigendur staðarins stóðu vaktina og þjónuðu einnig til borðs. Franklín Jóhann Margrétarson matreiðslumeistari er sá sem er í forsvari fyrir eldhúsinu.
Kröns býður upp á tiltölulega fáa en þó frábæra rétti. Verðið er heiðarlegt, umhverfið dásamlegt og þjónustulipurðin einstök. Réttirnir gleðja ekki bara bragð- og lyktarskyn heldur eru þeir algjört augnkonfekt, mikil alúð augljóslega lögð í hvern rétt, þeir fallega frambornir og nostrað við hvert smáatriði.
Matarupplifun í hjarta Reykjavíkur
Kröns er yndislegur veitingastaður á Laugaveginum sem ég mæli heilshugar með. Þar bíður þín einstök matarupplifun í hjarta Reykjavíkur. Bon apétit!