
Reynslusaga - Þóra
Síðustu áratugi hef ég verið að glíma við nokkra yfirvigt auk þess sem ég hef sveiflast til í þyngd.
Ég hef verið í ábyrgðarfullum stjórnunarstörfum undanfarna áratugi og þá er oft á tíðum mikið álag og streita.
Oftar en ekki hef ég sérstaklega í lok vinnudags hlaðið í mig fæðu þegar orkan minnkar til þess að reyna að halda mér á floti.
Þá er ég að tala um fæðu sem er innihaldsrík í sykri og hvítu hveiti.
Í starfi mínu þá leita ég iðulega til sérfræðinga til að fá aðstoð og ráðgjöf er varðar vinnuna, en ég áttaði mig á því að ég hafi í raun aldrei leitað til næringaráðgjafa eða sérfræðing í þeim efnum til að takast á við ofþyngd mína og kvilla.
Ég ákvað að gera breytingu í þessum efnum og ég fann Elísabetu Reynisdóttur næringarfræðing á netinu auk þess sem ég heyrði talað vel um hennar störf.
Ég byrjaði á því að taka 30 daga matarprógram og fylgdi fyrirmælum hennar.
Frá því að ég byrjaði hjá henni hef ég ekki fengið brjóstsviða en ég þurfti flesta daga að taka inn töflur við þeim kvilla.
Einnig hef ég verið að glíma við áreynsluþvagleka og bólgur.
Ástandið í þeim efnum hefur gjörbreyst en þvagleki hefur horfið og ég er hætt að vera með innlegg í nærbuxunum eins og oft áður.
Verkir í liðum hafa breyst umtalsvert til batnaðar.
Einnig var ég byrjuð að fá hækkaðan blóðþrýsting en það hefur einnig breyst til batnaðar.
Orkan hefur aukist, mér líður mun betur og einnig hafa svefngæði batnað.
Líðanin er á einhvern hátt eins og ég sé jöfn og það eru ekki sveiflur sem ég þarf að takast á við.
Mér finnst gaman að klæða mig upp og finna gömul föt sem ég hef ekki notað mjög lengi þar sem að þau voru of lítil.
Í fjölskyldu minni eru saga um sykursýki 2 og mér finnst mjög líklegt að ég hafi verið á leiðinni í áttina að því að fá þann sjúkdóm.
Ég hef trú á því að ég sé búin að breyta því ferli.
Mig langar að halda áfram og fylgja eftir prógramminu og kannski léttast um nokkur kíló enn.
Ég er mjög þakklát Betu Reynis, hún hefur kennt mér meira um næringu á þessum vikum en ég hef lært allt mitt líf.
Uppskriftirnar hennar eru svo frábærar og einfaldar.
Ég hef skorað á Betu að gera fleiri uppskriftir og ég nýt þess að borða matinn sem hún leggur til.
Ég hvet ykkur sem vilja gera breytingu í lífsstíl að leita til hennar.

Reynslusaga - Ingvar
Ég var nú eiginlega skráður í þetta matarprógramm án minnar vitundar.
Konan mín fer í þetta til að athuga hvort þetta hjálpi henni í gegnum veikindi sem hún er að ganga í gegnum.
Sjálfur er svo sem ekki í nógu góðu standi líkamlega. Nýbúinn að rífa liðþófa og slíta krossband.
Það má að einhverju leyti kenna þyngdinni á mér um hvað gerðist.
Ekki bara það þá er ég með kæfisvefn, of háan blóðþrýsting og nýlega greindur með sykursýki 2.
Sjálfur var ég aðeins byrjaður á að taka út kolvetni, Bjór, brauð, sykur og fleira sem hefur áhrif á þyngdaraukningu.
Svo ég tók bara vel í það að prófa 4 vikna matarprógramm með konunni hjá Betu Reynis.
Losna undan lyfjum að staðaldri.
Léttast niður í 100kg.
Lýða betur fyrir sjálfan mig og fyrir börnin mín.
1. Leið vel en erfitt að vera svangur fyrstu vikuna.
Smá pirraður yfir því að mega ekki leyfa mér í lok fyrstu viku þ.e.a.s. fá mér brauð eða pizzusneið.
Einnig voru mínir skammtar sennilega of litlir til að byrja með og því kannski hugsar maður meira um hungrið.
Uppskriftirnar flestar mjög góðar en viðurkenni að fékk mér stundum nokkrar súrar gúrkur til að fá sætt bragð með.
a. Lýður vel. Finn að ég er að tapa burtu bjúg sem ég var með og á auðveldara með að beygja mig, bara til að reima skónna!
Finn ekki eins mikið fyrir hjartslætti þegar ég er í slökun.
1. Næstu viku var þetta auðveldara.
Kemst í vana að þurfa ekki að borða eins mikið.
En aftur væri ég til í smá meira laugardaginn eða sunnudaginn þegar vikan er búin til að fá smá verðlaun fyrir að hafa staðist markmiðin.
Get ekki sagt að mér hafi fundist sumar þessara uppskrifta girnilegar til að byrja með enda eiginlega öllu óvanur þegar kemur að heilsumataræði.
Sellerírót hvað er það? Kom mér virkilega á óvart hversu gott þetta allt saman getur verið og stað þess að leita í annarskonar mat eins og brauð fékk ég mér frekar afgang af graskerasúpu sem var virkilega góð. Sérstaklega þegar við bættum smá fiskmeti í hana.
a. Lýður enn betur, sé á vigtinni að ég léttist frekar hratt sem er endilega ekki alltaf gott en ég persónulega mátti alveg við.
Hef verið að mæla blóðþrýstinginn og hann hefur lækkað frá því sem var.
Kominn uppundir 140 í hærri mörkum þó ég hafi verið á lyfjum við því og læknirinn var nýbúinn að auka við styrkleik lyfjanna áður en ég byrjaði.
Eftir mælingu þá er ég kominn niður í 130 í efri mörk og um 82 í neðri.
1. Hættur að finna fyrir svengd á milli mála.
Viðurkenni að hafa samt aðeins fundið fyrir svengdinni þegar við eigum að fasta.
En gat þá fengið mér þeyting að hætti Betu, það seðjaði hungrið að mestu.
Uppskriftirnar verða bara betri.
Það er stundum svolítið erfitt að elda þegar við erum með 2 gutta á heimilinu.
Þurfum þá annarslagið að elda 2 rétti þ.e. fyrir okkur og eitthvað annað fyrir þá.
Sérstaklega erfitt þegar við eigum að fasta og þeir ekki.
En er samt stoltur af okkur báðum að standast þá freistingu.
a. Blóðþrýstingurinn sem ég fylgist vel með er kominn í 123 efri mörk og 62 í neðri, er samt enn á lyfjum.
Ef þetta heldur áfram svona þarf ég að fara að passa mig að fara ekki of neðarlega það er heldur ekki gott.
10kg farinn og lýður afskaplega vel.
Fórum á árshátíð með vinnunni minni og leyfðum okkur þetta eina kvöld.
Það styrkti okkur bara enn frekar til að halda áfram að fylgja prógramminu.
1. Nú snýst þetta svolítið um að þrauka út þessa síðustu viku en samt ekki missa sjónina á markmiðinu.
Það kviknar undir ýmsum hugmyndum með hráefnin sem notuð hafa verið í námskeiðinu sem ég hafði ekki hugsað neitt út í fyrr en nú.
Í staðinn fyrir hrísgrjón er betra að nota bygg eða kínóa og fleira.
Hafði alltaf ímyndað mér grasker eins og þau sem þú skreytir fyrir hrekkja vöku, í yfirstærð, vond lykt og slepjuleg. En þau eru það ekki.
Mæli eindregið með þessu námskeiði þó það væri ekki nema til að fá aðra sýn á matarvenjum.
a. Blóðþrýstingurinn hefur haldist góður.
13kg farin og vantar ekki mikið upp á að fötin passi mér ekki lengur.

Reynslusaga - Heiða Björk
Ég leitaði til Betu Reynis því ég var að ganga í gegnum erfið veikindi.
Ég var líka komin með of hátt kólesteról og heimilislæknirinn minn ráðlagði mér að breyta mataræðinu mínu.
Mér fannst að breyta mataræðinu væri eins og frumskógur og vissi ég ekkert hvar ég ætti að byrja eða gera.
Beta ráðlagði mér að byrja taka 7 daga matarprógramm hjá sér.
Vikan var erfið til að byrja með og fannst ég vera oft mjög svöng en ákvað að ég ætlaði að þrauka þessa einu viku.
Ég tileinkaði mér strax heilbrigðari næringu og fannst ég læra mikið bara á einni viku.
Ég ræddi við Betu og sagði hvað þessi eina vika hafði gert mikið fyrir mig og þá ákvað ég að fara í 4 vikna matarprógrammið hjá henni nema núna ætlaði ég að fá manninn minn með mér í það því hann þurfti líka að taka sig í gegn heilsuna vegna.
Markmiðin mín með 4 vikna matarprógramminu voru að sjá hvort þetta myndi hafa góð áhrif á veikindin mín og að lækka kólesteról svo ég þurfi ekki að fara á lyf út af því.
Léttast um 5 kg og lýða betur í líkama og sál fyrir mig og fjölskylduna mína.
1. Mér fannst hún ekki það erfið því ég hafði nýlega farið í gegnum 7 daga matarprógrammið.
En samt að finna smá fyrir því að maður vildi borða meira en maður þurfti.
a. Fannst ég ekki finna mikinn mun nema ég upplifði mig léttari í sálinni og mér leið betur.
1. Var auðveldari en ég bjóst við, matarskammtarnir voru byrjaðir að minnka og ég fann að ég þurfti ekki eins mikið að leitast í að narta bara til að slá að hungrið og ef þess þurfti þá valdi ég bláber eða grænt epli.
Oftast þurfti ég þá bara lítið af því t.d. einn bát af epli.
a. Líður en betur en í viku eitt.
1. Er hætt að finna fyrir svengd á milli mála og ég meiri segja náði að fasta frá morgni til kvöldmatar sem ég hafði ekki trú á að ég myndi geta.
Er byrjuð að missa bjúg og sé á fatnaðinum mínum að ég sé byrjuð að missa kíló bara með því að breyta mataræðinu.
Því veikindin mín eru þannig að ég hef ekki getað hreyft mig mikið. 3 kíló farin.
a. Á laugardeginum þessa viku fór ég og maðurinn minn á árshátíð og vorum búin að ræða við Betu um matinn þar, ekki vert að fara ef við megum ekki borða neitt.
Hún sagði að auðvitað ættum við að borða það sem við vildum þar.
Þannig þennan laugardag ákvöðum við bara að leyfa okkur allt.
Auðvitað þegar maður á börn þá er laugardagur NAMMI dagur og ég stóð í búðinni og vissi ekki hvað ég ætti að velja því mig langaði eiginlega ekki í neitt en endaði að kaupa mér eitt súkkulaði sem ég naut þess að borða yfir daginn en þurfti samt ekkert meira en það.
Fyrir þetta prógramm hefði ég fengið mér miklu meira nammi en núna fann ég bara ekki fyrir þessari sykurlöngun eins og áður.
1. Nú snýst þetta svolítið um að þrauka út þessa síðustu viku en samt ekki missa sjónina á markmiðinu.
Ég er bæði stolt af mér og manninum mínum að hafa farið í þetta ferðalag og ég lærði margt um mat og kynntist fleiri vörum sem við á heimilinu höfum aldrei notað og sumt hljómar ekki girnilegt en kemur manni svo á óvart.
Eftir þessar 4 vikur höfum við líka tileinkað okkur meira sem er hollara og manni langar bara ekki að fara í gamla farið því manni líður bara svo miklu betur.
a. Er búin að missa þarna 5,7 kíló og markmið mitt var bara að missa 5kg.
Finn að ég er léttari, fötin passa betur og á auðveldara með að hreyfa mig, því veikindin mín eru ekki alveg horfin.
Ætla að vera duglega að fara ekki í gamla farið og finnst ég fá samvisku bit að borða smá kolvetni núna og vil helst ekki velja það. Sykurþörfin ekki eins mikil og áður.
Fyrir þetta námskeið hafi ég alltaf verið að reyna minnka sykurþörfina hjá mér til að reyna grennast og seinasta sem ég var að gera fyrir námskeiðið var að taka inn fæðubótarefnið Lean Body.
Vil ekki endalaust vera taka svoleiðis efni.
Þannig í dag eftir námskeiðið er ég búin að læra akkúrat sem Lean Body á að gera en þá bara sjálf með fæðunni sem er svo miklu betra.
Þannig mæli ég 100% með námskeiðinu hjá Betu Reynis, er svo ánægð að ég og maðurinn minn fórum á það hjá henni.

Reynslusaga - Dröfn Svavarsdóttir
Síðasta sumar ákvað ég að nú skyldi ég loksins gera alvöru úr því að komast í kjörþyngd, og ekki síður að lækka kólesterólið í blóðinu, en það hafði farið hækkandi með árunum.
Á þessum tíma stóð mér til boða að fara á lyf sem myndi lækka kólesterólið, en ég vildi frekar reyna aðrar leiðir áður.
Þess má geta að ég vó á þessum tíma 70 kg, en markmiðið var að léttast um 5 kg.
Ég hef alltaf haft þá trú að holl og fjölbreytt fæða, sem og hreyfing og hvíld í góðu jafnvægi, hafi mikil og góð áhrif á lífsgæði, og hafði sannarlega reynt mitt besta til að vanda mig í þeim efnum.
Ég ákvað því að skella mér á fjarnámskeið hjá Betu, en námskeiðið stóð yfir í 4 vikur.
Ég hafði áður reynt ákveðna útgáfu af ketó mataræðinu en vildi núna læra hvernig ég gæti bætt ávöxtum meira inn í mataræðið, aukið fjölbreytileika í fæðuvali og máltíðum, og á sama tíma náð að léttast um þessi 5 aukakíló.
Ég hafði heyrt nokkur viðtöl í fjölmiðlum við Betu og alltaf heillast af því hversu einlæg hún var, og hve hreint út hún talaði um allt það sem hún var spurð út í.
Ég þurfti því ekki að hugsa mig tvisvar um þegar ég sá námskeiðið auglýst, langaði að drekka í mig allan þennan fróðleik og uppskera að launum betri heilsu.
Það var ljóst alveg frá upphafi námskeiðsins, að þarna væri saman komið gríðarlegt magn af fróðleik um fæðu; hvernig best væri að setja saman máltíðir, og hvernig þessi ákveðna aðferðafræði gæti náð að endurstilla efnaskipti líkamans, lækka blóðsykur og draga úr bólgum.
Í dag er ég svo sannarlega farin að uppskera beinan ávinning af því sem ég lærði á námskeiðinu, og um leið farin að njóta lífsins mun betur en áður.
Af fullum krafti tekst ég á við dagleg verkefni. Ég held áfram að fylgja þeim ráðum sem ég lærði á námskeiðinu, með fáum undantekningum þó, en er afar þakklát fyrir allt það sem ég lærði.
Kólesterólið hafði lækkað í haust þegar það var síðast mælt, bólgur í líkamanum hafa gufað upp, og ég fæ ekki lengur harðsperrur ef ég reyni hressilega á mig í ræktinni.
Þá heyrir þrálátur höfuðverkur sögunni til, og ekki skemmir fyrir hvað húðin er orðin slétt og fín. Aukakílóin 5 eru fokin fyrir lifandi löngu!
Námskeiðið hjá Betu var sú allra besta sumargjöf sem ég gat gefið sjálfri mér, og er sannarlega eitthvað sem ég mun búa að alla ævi“

Reynslusaga - Hrefna Bára Guðmundsdóttir
Ég hef oft í gegnum tíðina prófað að breyta um mataræði.
Ýmist farið á einhverja ákveðna kúra eða sérfæði, eða prófað mig áfram með matarsamsetningar sem mér sjálfri hafði dottið í hug að myndu virka þrusuvel.
En alveg sama hvað ég reyndi, virkaði ekkert sem skyldi. Betri líðan og jafnvægi var bara alls ekki að skila sér, og ég hélt áfram að spóla föst í sama farinu.
Dag einn sá ég auglýst námskeið hjá Betu og varð strax forvitin.
Ég var þá nýbúin að lesa Svo týnist hjartaslóð, bókina um lífshlaup hennar, og hvernig hún hafði á undraverðan hátt náð að gjörbreyta lífi sínu og lífstíl í kjölfar erfiðra veikinda.
Ég ákvað að slá til og skráði mig á námskeiðið, fannst ég hreinlega ekki hafa neinu að tapa.
Einkenni breytingarskeiðsins voru þá nýlega farin að hellast yfir mig, m.a. þyngdaraukningin sem gjarnan fylgir því aldurskeiði. Þá var ég oft ekki að ná að sofa heilu næturnar, og líðanin og þreytan eftir því.
Það kom mér ánægjulega á óvart, hversu auðvelt var að breyta um mataræði með þeim aðferðum sem Beta kenndi okkur á námskeiðinu.
Um leið og ég fór að fara eftir þeim ráðleggingum sem hún gaf okkur, fór mér að líða svo miklu betur. Hugarfar og viðhorf einhvern veginn allan tímann á hárréttum stað og hér loksins komið mataræði sem hentaði mér fullkomnlega.
Einu og hálfu ári eftir að ég byrjaði á matarprógramminu hjá Betu er ég enn að nýta mér það sem ég lærði.
Nýr lífstíll og bættar matarvenjur hvoru tveggja var komið til að vera; líðanin og lífsorkan er einfaldlega svo góð, að það er ekki annað hægt en að halda áfram á sömu leið.
Fyrst og fremst lærði ég að bera ábyrgð á heilsu minni og lífi mínu öllu.
Ég finn fyrir meiri gleði og betri líðan, dagsdaglega. Lífsgæðin eru svo miklu betri og orkan mun meiri. Allar bólgur í líkamanum hafa minnkað, ég er hætt að taka inn bakflæðislyf sem ég var búin að vera á í nokkur ár, og einkenni áreynsluastma sem ég er búin að vera að glíma við lengi minnkuðu mikið.
Og síðast en ekki síst, þá er ég farin að sofa mun betur á næturnar

Reynslusaga - Svanhvít Una Ingvarsdóttir
Árið 2001 var ég ófrísk að mínu yngsta barni.
Meðgangan átti eftir að reynast gjörólík þeim fyrri, því í þetta skiptið var ég sísvöng, orkulaus og með svima í tíma og ótíma.
Kílóin hrundu af mér, þrátt fyrir að ég væri sínartandi.
Á 29. viku meðgöngu var ég loksins send í sykurþolspróf á Landspítalanum.
Niðurstöðurnar sýndu fram á að að ég væri komin með sykursýki, og það sem eftir var meðgöngunnar þurfti ég að sprauta mig daglega með insúlíni.
Eftir fæðinguna var hins vegar ákveðið að taka mig af ínsúlíninu, og mér sagt að héðan í frá ætti ég sjálf að mæla og fylgjast með blóðsykrinum. Í algjörri afneitun pakkaði ég mælinum hins vegar niður, engan veginn tilbúin til að axla nokkra einustu ábyrgð á sjálfri mér.
Tveimur árum síðar fluttum við fjölskyldan frá Vestmannaeyjum til Eskifjarðar.
Á þeim tíma var ég aftur orðin grindhoruð, og manninum mínum alveg hætt að standa á sama.
Þegar hann spurði mig áhyggjufullur hvort ég væri ekki örugglega að mæla blóðsykurinn reglulega, sagðist ég ekkert þurfa þess.
Þetta væri ekkert til að hafa áhyggjur af, ég væri bara þreytt eftir flutningana.
En minn maður hélt nú ekki! Hann benti mér á að ég væri alltaf sofnuð strax að loknum kvöldmat sem væri engan veginn eðlilegt. Og auðvitað var þetta alveg rétt hjá honum.
Ég pantaði mér því tíma hjá lækni sem sendi mig beinustu leið í rannsókn þar sem langtímablóðsykur var mældur.
Læknirinn hringdi í mig í hádeginu daginn eftir og spurði hvar ég væri stödd. Ég svaraði brött að ég væri nú bara í vinnunni. Eftir smá þögn í símanum sagðist hann kalla mig heppna að ná yfir höfuð að vakna á morgnana, ég væri það lág í blóðsykri.
Áður en hann kvaddi skipaði hann mér að mæta strax upp á heilsugæslu.
Ég ætla ekkert að neita því að nú tóku við töff tímar.
Blóðsykurinn sífellt að rokka upp og niður því ég vissi ekkert hvað mér væri óhætt að borða.
Eftir að hafa marínerast í sjálfsvorkun í um eitt ár, reif ég mig upp og skráði mig í nám í einkaþjálfun, fyrst og fremst til að reyna að skilja minn eiginn líkama betur, en ekki síður vegna þess að það hjálpar í baráttunni við sykursýki að búa við líkamlegt hreysti.
Ég lét þar ekki staðar numið, heldur bætti við námi í heilsumarkþjálfun.
Námið hjálpaði mér vissulega, en þrátt fyrir að mér finndist ég alltaf vera að borða rétt og hollt, var blóðsykurinn samt sem áður áfram í ójafnvægi.
Sem er kannski ekkert skrítið þegar ég hugsa til baka, því ég hélt áfram af og til að næla mér í einföld kolvetni sem gáfu skjóta orku.
Ég var líka ansi lunkin við að finna mér endalausar afsakanir til að geta svindlað. „Æ, það er sumar, þá má maður nú aðeins leyfa sér“...“Æ, ég tek mig í gegn eftir afmælið/jólin/sumarið/matarboðið hjá....“. Þú þekkir þetta alveg, ekki satt?
Dag einn fékk ég símtal frá vinkonu minni.
Hún sagðist hafa skráð sig á námskeið hjá Betu Reynis næringarfræðingi og spurði hvort ég vildi ekki bara koma með.
Ég byrjaði á því að afþakka, það hefði ekkert upp á sig því ég gæti hvort sem er aldrei farið eftir einhverju sérstöku mataræði.
En einhverra hluta vegna endaði ég á því að skrá mig á námskeiðið, þó ég hefði litla trú á því að það myndi skila mér árangri, hvað þá að mér tækist að tileinka mér varanlegar breytingar þegar kæmi að mataræði og lífstíl.
Það fór þó svo, að á námskeiðinu náði ég að fara nákvæmlega í einu og öllu eftir því sem Beta ráðlagði okkur, og í dag hefur mér aldrei liðið betur í líkamanum.
Ég hef misst fjölda kílóa og bætt við mig orku sem er nú í hámarki. Blóðsykurinn hefur aldrei verið í eins góðu jafnvægi, og meira að segja húðin ljómar sem aldrei fyrr. Fötin fara mér betur og ég sef eins og lamb á næturnar.
Líkamlega og andlega hliðin er í góðu jafnvægi, og það besta er, að mig langar bara alls ekkert í sætindi, heldur kallar líkaminn eingöngu á hreint og hollt fæði!
Skömmu eftir námskeiðið hjá Betu fór ég í mína reglubundnu skoðun á sykursýkisdeildina á Landspítalanum, og fékk þar betri útkomu úr blóðprufum og langtímablóðsykursmælingum en nokkru sinni fyrr.
Ég mun því svo sannarlega halda áfram að fylgja góðu ráðunum hennar Betu varðandi blóðsykurinn, mataræði og lífstíl, ekki spurning

Reynslusaga - Ósk Gústafsdóttir
Þegar ég fór fyrst í ráðgjöf til Betu var maginn algörlega í rúst. Ég hafði þjáðst af bakflæði í mörg ár, og oft leitað til læknis þess vegna.
Þá er ég einnig með staðfest nikkelofnæmi.
Ég vissi að aðalvandamál mitt varðandi heilsuna tengdist þessu að einhverju leyti, en breytt mataræði og bakflæðislyf höfðu ekkert náð að hjálpa mér. Ef eitthvað, þá höfðu magasýrulækkandi bakflæðislyfin frekar aukið á vandann.
Beta áttaði sig strax á því að vandinn lægi í of lágum magasýrum.
Árangurinn af þeim mixtúrum sem hún benti mér á að nota, var undraverður.
Á innan við viku varð algjör viðsnúningur á vandamáli sem náð hafði að grassera yfir margra mánaða tímabil, og truflað líf mig verulega.
Tæpum tveim mánuðum síðar var ég nánast orðin laus við bakflæðið, og maginn kominn í eðlilegt horf.
Í samtali okkar Betu kom í ljós að hún er algjör sérfræðingur um nikkelofnæmi og óþol.
Þetta var í fyrsta skipti sem ég gat talað almennilega við einhvern um þau áhrif sem nikkelrík fæða getur haft innvortis, því læknar og hjúkrunarfræðingar sem ég hafði áður rætt við um nikkelið, voru eingöngu meðvitaðir um útvortis áhrif þess, svo sem útbrot undan ódýrum skartgripum.
Fram að þessu hafði ég aldrei fengið hjálp varðandi mataræðið.
Beta reyndist sannkölluð himnasending!
Loksins hafði ég hitt á einhvern sem áttaði sig á því, hvernig„hollustufæðan“ sem við erum sífellt hvött til að borða, getur þvert á móti verið stórt vandamál fyrir fólk sem glímir við nikkelofnæmi.
Margar tegundir af baunum, fræjum og hnetum eru t.d. efst á listanum yfir nikkelríkar fæðutegundir, og eitthvað sem fólk með nikkelofnæmi og óþol þarf að takmarka mjög í sínu mataræði.
Þá benti Beta mér líka á það, að vítamín sem ég var að taka inn, og tannkrem sem ég notaði, gætu mögulega innihaldið nikkel.
Hún gaf mér einnig einföld ráð sem ég nýti mér núna í hvert sinn sem ég fer á veitingastaði eða í veislur, eða þegar allar upplýsingar um innihald matvöru eru ekki alveg á hreinu.
Að fara í ráðgjöf til Betu er sú allra besta ákvörðun sem ég hef tekið varðandi mína heilsu.
Ég er núna loksins komin með fullt af góðum upplýsingum og ráðum til að bæta heilsuna enn frekar."