Nýlega heimsótti ég rótgróinn veitingarstað sem verið hefur til húsa á nákvæmlega sama stað í heil 40 ár.
Potturinn og Pannan er fjölskylduvænn veitingastaðir sem notið hefur óslitinna vinsælda og er rómaður fyrir þægilega þjónustu, notalegt umhverfi og ekki síst ljúffengar veitingar á sanngjörnu verði.
Staðurinn hefur verið sívinsæll viðkomustaður í Brautarholti 22, miðsvæðis í Reykjavík, allar götur síðan í mars 1982 þegar borð voru fyrst dekkuð og allt gert klárt fyrir fyrstu gesti staðarins.
Endurnýjun staðarins kemur til með nýjum eigendum
Nýju eigendurnir þau Aleksandra og Ásgeir kynntust á Pottinum og Pönnunni þar sem þau voru bæði að vinna. Ásgeir hefur unnið sem matreiðslumeistari þar í rúmlega 20 ár. Þau kynntust í vinnunni og urðu svo hjón, keyptu svo staðinn og hafa gert þessar fallegu endurbætur. Falleg saga sem gefur sögu staðarins ennþá fallegri umgjörð.
Þegar allir þættir eins og umhverfi, þjónusta og matur tala að því að er virðist áreynslulaust saman, verður upplifun gesta á veitingastað töfrum líkust. Huga þarf að sérhverju smáatriði og heildarupplifun það góð að þig langi einlæglega til að sækja staðinn aftur heim. Og þannig var það einmitt þegar ég og góður vinur minni sóttum Pottinn og Pönnuna heim.
Við komuna tók á móti okkur og bauð okkur velkomin þjónn sem bar það með sér að vera fagmaður fram í fingurgóma. Upplifunin var þægileg og þar sem ég hafði komið á staðinn fyrir breytingu þá fannst mér hann kunnulegur en með nýjum ferskum blæ.
Fallega hannaður veitingarstaður og klassískur, innréttingar og umhverfi ekki um of nýtískulegar.
Hér hefur ekki öllu verið sópað út fyrir nýtt. Mér varð sérstaklega starsýnt á fallega barinn sem hefur nú leyst af hólmi gamla góða salatbarinn sem sérstaklega trekkti að gesti hér á árum áður.
Þjónustan var framúrskarandi og hnökralaus allt frá fyrstu stundu, fagleg, fáguð og vinaleg. Alexandra er eigandi staðarins ásamt eiginmanni sínum og hún er metnaðarfull fyrir hönd staðarins og einstaklega notalegt að fá hana til að útskýra matseðilinn.
Allt skiptir máli líka loftið og í fallega látlausri hvelfing í lofti sem gaf staðnum hlýjan blæ og átti sinn þátt í að skapa notalega umgjörð um staðinn.
Vínrekki frá gamalli tíð stóð sýna vakt og gamli góði garðskálinn var enn á sínum stað.
Velkomin upplifun og vinaleg að sjá hvernig það gamla fær að lifa áfram samhliða velheppnuðum nýjungum á þessum rótgróna veitingastað. Öll smáatriði úthugsuð og útfærslur sem komu skemmtilega á óvart.
Falleg harmónía sem byrjaði eins og áður segir strax þegar tekið var á móti okkur við komu. Þessar fyrstu sekúndur þegar þú gengur inn á veitingastað skipta ótrúlega miklu máli þegar kemur að heildarupplifun og leggur óneitanlega línurnar fyrir framhaldið.
Matseðilinn kom skemmtilega á óvart
Ég hafði teiknað upp í huganum hvernig matseðli ég gæti átt von á, þegar búin að ákveða fyrirfram að hann yrði fágaður, kannski svoldið „gamaldags“ en samt með bættum blæ. Þær hugmyndir hurfu út í veður og vind þegar ég opnaði matseðilinn og við blasti algjör veisla, snilld og gersemi!
Hafið, Sveitin og Móðir Jörð – eigum við eitthvað að ræða þetta? Fegurð í orðavali, uppsetningu, samsetningu rétta og ekki síst verðinu. Þarna sátum við og lásum seðilinn aftur og aftur, algjör sælutilfinning að sitja í rólegheitum og skoða matseðilinn í góðu tómi og í einstaklega notalegu andrúmslofti og umhverfi.
Það að horfa bara á matseðil er víst ekki nóg og því var drifið í að panta af seðli.
Fyrirvalinu varð Hafið og Sveitin (surf and turf) sem þjóninn okkar hún Sandra paraði svo listilega vel fyrir okkur með hvítvíni frá heimalandi sínu, Portúgal. Að ráðum Söndru fengum við okkur einnig tvo mismunandi og velheppnaða Martini drykki í fordrykk til að efla matarlyst og meltingu. Öll smáatriði eins og framreiðsla, magn og samsetning drykkja tvinnuðust fullkomnlega saman.
Hér er Aleksandra að gera fordrykkina sem ég get sagt skammlaust að eru með þeim betri sem ég hef fengið - Forest Walk og Moscow Mule - góð ástæða að droppa við í fordrykk.
Af matseðli völdum við í forrétt grillaða og hvítlaukssmurða humarhala sem bornir voru fram með ristuðu brauði og salati. Þetta var eins og komast í hátíðarmat til mömmu. Vel útilátið, fullkomið til að deila og njóta hverra mínútu.
Í aðalrétt voru m.a. strangheiðarlegir kræklinga með syndsamlega góðri sósu og dúnmjúk humarsúpa sem þið verðið að prófa! Ekki of frek á bragðið og heldur ekki of mild heldur fullkomnlega balanseruð. Þá var framsettningin framúrskarandi sannkallað og augnkonfekt.
Nauta capaccio með klettasalati, furuhnetum og parmesan osti var ferskur réttur, án allra stæla og grillaður innanlærisvöðvi með béarnaise sósu smakkaðist dásamlega, framborinn með grilluðu grænmeti, íslensku smælki og rauðlaukssultu. Hér var allt upp á 10.
Með nauta carpaccio og lambakjötið var borði fram rauðvíni húsins sem var frábær pörun.
Grillaður lax með kartöflumús, seljurótarmauki, tahini sósu og grilluðu grænmeti rann ljúflega niður, borinn fram með hvítvíninu frá Portúgal og heitir Silk & Spice.
Í eftirrétt urðu annars vegar frönsk súkkulaðikaka með þeyttum rjóma, vanilluís og ávöxtum, og hins vegar vanillu créme brúlée með þeyttum rjóma og ávöxtum fyrir valinu. Eftirréttirnir voru bornir fram með púrtvíni. Næsta stig fullkominnar og hnökralausrar sinfóníu.
Heildarupplifunin á Pottinum og Pönnunni þetta kvöld var mögnuð. Samvinna þjóna í sal og eldhúss var hnökralaus og skilaði eftirminnilegri og ánægjulegri matarupplifun.
Ég mæli heilshugar með ferð á Pottinum og Pönnunni næsti þegar þið viljið gera ykkur dagamun. Þar býður ykkar þægilegt viðmót, fagleg þjónusta og dásamlegir réttir þar sem gæðin eru í hávegum höfð um leið og verð er sanngjarnt. Ég hreinlega vissi ekki að staðurinn væri á þessu faglega, fallega og magnaða stigi sem hann er. Njótið, njótið og njótið enn meira.