Þú ert örugglega búin/n að heyra og sjá það ótal sinnum í fjölmiðlum, á Instagramminu hjá flotta áhrifavaldinum, eða annars staðar á samfélagsmiðlum, að haframjólkin sé svo miklu, miklu hollari en þessi sem kemur af kúnni.
Það sem flestir aftur á móti gera sér ekki grein fyrir, er að hafrarnir í haframjólkinni innihalda efnasambönd sem geta í raun skaðað meltingu og heilsu.
Um daginn las ég grein sem birtist á vefnum um hlaðvarpsþátt, þar sem læknir nokkur hvatti til þess, að allt íslenska heilbrigðiskerfið yrði „veganvætt“. Með því mætti bæta almenna heilsu þjóðarinnar, og lækka útgjöld til þessa mikilvæga málaflokks í leiðinni. (1.)
Ég er, svo ég sé bara alveg hreinskilin, alls ekki sammála þessari hugmynd læknisins. Finnst hugmyndin satt best að segja afleit. Ég er nefnilega alls ekki á þeirri skoðun, að veganfæði sé heilt yfir svo heilsusamlegt að það eitt og sér geti bjargað lífi og heilsu fólks.
Gott dæmi um fæðu sem mikið er notuð af veganistum er haframjólkin, sem hingað til lands er flutt í tonnavís (sem skapar um leið annað vandamál sem ég ætla ekki að fara í hér í þessari grein, því kolefnisspor og loftlagsmál eru sannarlega efni í allt aðra umræðu). Okkur er líka talin trú um, að haframjólkin sé miklu hollari kostur en kúamjólk. En er það svo? Mitt svar er þvert nei!
Það sem alvarlegast er, er að sumir foreldrar ungra barna velja haframjólkina fram yfir kúamjólkina, þar sem þau telja hana hollari kost.
Fyrir það fyrsta, þá inniheldur haframjólkin efni sem kallast fýtínsýra (phytas), en hún dregur verulega úr upptöku á mikilvægum vítamínum og steinefnum, eins og t.d. kalsíum, magnesíum og sinki.
Annar ókostur við haframjólkina er sá, að hún inniheldur gjarnan hátt hlutfall af illgresiseyðinum glýfosati, sem finna má í ógeðisefninu Roundup sem notað hefur verið m.a. hér á landi til að eyða illgresi við þjóðveginn. Glýfosat er þekktur skaðvaldur fyrir þarmana, og veldur t.d. skemmdum á slímhúð í ristli. Þá hefur glýfosat í rannsóknum verið tengt við krabbamein og vandamál tengd hormónakerfi. Það sem alvarlegast er, er að sumir foreldrar ungra barna velja haframjólkina fram yfir kúamjólkina, þar sem þau telja hana hollari kost.
Rannsókn frá árinu 2017 sýnir, að glýsofat finnist í auknum mæli í þvagi fólks og hefur sú staða versnað frá árinu 1990, þegar bandaríski landbúnaðarrisinn Monsanto kynnti á markað erfðabreytt matvæli, sem sérstaklega er ætlað að vera spreyjuð með Roundup (2). Á árinu 2016 tapaði Monsanto dómsmáli þar sem deilt var um hvort Roundup væri krabbameinsvaldandi.
Hafrar eru oft uppspretta sveppaeiturefna (mycotoxin) í fæðu (3.), en þau geta valdið fjölda vandamála fyrir meltingu og hormónakerfi svo fátt eitt sé talið (það vita þau vel sem þurft hafa að flýja heimili sitt vegna alvarlegra veikinda tengdum raka og myglu!), og er bara eitthvað sem þú vilt alls ekki fá ofan í þig.
Hafrar innihalda einnig mikið magn af þungmálminum kadmíum, en þungmálmar eru heldur betur ekki eitthvað sem þú vilt að safnist fyrir í líkamanum, því þungmálmar geta með tímanum m.a. haft neikvæð áhrif á taugakerfi okkar.
Haframjólkin inniheldur lítið af próteinum, og lítið sem ekkert af vítamínum
Þá inniheldur haframjólkin lítið af próteinum, og lítið sem ekkert af vítamínum og steinefnum frá náttúrunnar hendi, á meðan hún aftur á móti inniheldur mikið magn kolvetna. Þó að haframjölið (sem haframjólkin er gerð úr), sé vissulega talið innihalda betri útgáfuna af kolvetnum (þessi flóknu), og góð uppspretta trefja, þá eru því miður fleiri gallar en kostir við haframjólkina þegar allt er talið.
Oft er vítamínum og steinefnum bætt sérstaklega út í haframjólkina ásamt jurtaolíu. Jurtaolíur eins og sólblóma- og sojaolíur, innihalda omega 6 fitusýrur, en ég mæli alls ekki með að auka inntöku á omega 6 fitusýrum, því þær auka hættu á bólgum í líkamanum á meðan omega 3 fitursýrur draga úr bólgum. Líkami okkar þarf vissulega á bæði omega 3 og 6 fitusýrum að halda, því báðar þessar fitusýrar eru okkur lífsnauðsynlegar. En magn omega 3 og 6 þarf að vera í jafnvægi og þá helst 1:5 (þ.e. 1 hluti omega 3 á móti 5 hlutar af omega 6). Í dag er hlutfallið hjá flestum talið 1:20.
Ef við erum að drekka haframjólkina í staðinn fyrir venjulega mjólk, til að vinna á heilsukvillum eins og bólgum, tel ég búið að selja okkur köttinn í sekknum.
Það má þó ekki gleyma því, að til eru einstaklingar sem sannarlega eru með ofnæmi eða óþol fyrir kúamjólk, og þurfa því nauðsynlega að leita allra leiða til að fá sambærilega næringu/fæðutegund inn í mataræði sitt, í staðinn fyrir kúamjólkina.
Matur úr okkar nærumhverfi er líklega besti kosturinn.
Við þurfum ávallt að temja okkur að vera gagnrýnin á þær fullyrðingar um heilsu sem að okkur er rétt, jafnvel þó þær fullyrðingar komi frá fagfólki í heilbrigðisstétt. Þá er líka mikilvægt að hafa alltaf í huga, að við erum öll einstök, og því mismunandi hvað hentar hverjum og einum þegar kemur að næringu og mataræði. Ég get þess vegna aldrei lagt nógu mikla áherslu á það, hversu mikilvægt það er að vera ávallt vel upplýstur um heilsuna, hlusta ávallt vel á líkamann, og klæðskerasníða mataræði og almenna heilsuhegðun sína eftir því sem líkaminn er að segja okkur, þegar hann bregst við því sem við látum inn fyrir varir okkar.
Við vitum öll að við þurfum næringarefni úr fæðunni til að lifa og þrífast. Með því að vanda valið og borða holla og næringarríka fæðu getum við dregið marktækt úr mörgum alvarlegum sjúkdómum sem ógna heilsu okkar og velferð.
Hugsum málið aðeins áður en við veganvæðum skólakerfið og setjum börnin okkar á „hollari“ kostinn, eða réttara sagt, það sem við höldum að sé hollari kostur.
2 Álit
Ég er með alvarlegt mjólkuróþol, eiginlega ofnæmi og verð mjög illa veik. Ég hef alveg elskað oatly vörurnar, enda eru þær með svo mikið úrval. Hvaða mjólk mælir þú með?
Ég er með alvarlegt mjólkuróþol, eiginlega ofnæmi og verð mjög illa veik. Ég hef alveg elskað oatly vörurnar, enda eru þær með svo mikið úrval. Hvaða mjólk mælir þú með?