Ferðalag í gegnum áskoranir

Ferðalag í gegnum áskoranir

Áfangastaðir og árangur

Við eigum öll okkar drauma og markmið í lífinu, hvort sem um er að ræða eitthvað sem snýr að heilsu okkar, persónulegum framförum eða einfaldlega það að upplifa eitthvað nýtt. Fyrir nokkrum árum ákvað ég að taka fyrstu skrefin í átt að einum af mínum mörgu draumum – það að ganga á Esjuna. Vegna erfiðra veikinda sem ég hafði gengið í gegnum var þetta eitthvað sem var mér alls ekki auðvelt, því veikindin höfðu dregið úr mér þrek og komið niður á sjálfstrausti mínu. Þrátt fyrir það, og með hjálp góðrar vinkonu, tókst mér að leggja af stað.

Fyrsta skrefið 

Það var seint að kvöldi í lok maí, veðrið var fallegt en kalt. Þegar við stóðum við rætur fjallsins, leit ég upp fjallshlíðina og fann hvernig kvíðinn læddist að mér. Fjallið virtist rosalega langt og bratt fyrir konu sem var ekkert í sérlega góðu formi. Ég byrjaði að afsaka mig og sagði við vinkonu mína að líklega færi ég aldrei alveg á toppinn í þessari ferð. En þá sagði vinkona mín svolítið sem breytti öllu: „Einn fótinn fram, lítil skref. Næsti fylgir á eftir og að lokum ertu komin á sama áfangastað og þessi sem hljóp á undan okkur.“

Lexían um lítil Skref 

Þessi setning situr enn í mér og hefur orðið að leiðarljósi í mínu lífi. Það er nefnilega svo alltof oft þannig, að við erum ofupptekin af því að ná markmiðum okkar á sem skemmstum tíma. Svo upptekin að við gleymum að það er í raun ferðalagið og litlu skrefin sem leiða okkur að áfangastaðnum. Það er ekkert að því að taka lítil skref, því þessi litlu skref leiða okkur á endanum nákvæmlega sama áfangastað og þeir sem spretta úr spori. Það sem ég á við er það, að það er ekki alltaf það besta í stöðunni að velja auðveldustu lausnina heldur miklu frekar þá lausn sem kemur þér á skemmtilegasta máta á toppinn. Jafnvel þó ferðalagið taki kannski aðeins lengri tíma.

Að njóta ferðalagsins 

Það er líka mjög mikilvægt að njóta ferðalagsins, því það að njóta er í sjálfu sér verðmætur hluti af lífinu. Hvort sem við erum að klífa fjall, bæta heilsuna eða vinna að persónulegum markmiðum, þá skiptir mestu máli að halda alltaf áfram, skref fyrir skref. Með tímanum sjáum við árangurinn og lærum að meta hann – jafnvel í litlu hlutunum.

Þegar ég hugsa til baka um þessa ferð á Esjuna, sé ég ekki aðeins fjallið sem ég sigraði heldur líka hvernig sjálfstaustið óx til muna. Það var ekki bara það að ná toppnum sem skipti máli, heldur allt sem ég lærði á leiðinni. Þannig er það líka í lífinu – litlu skrefin og viðvarandi áreynslan skila okkur að lokum á áfangastað.

Kominn tími á plan 

Kannski er kominn tími á nýtt plan og nýjar áskoranir í þínu lífi. Þarf ekki að vera eitthvað flókið – bara eitthvað sem skiptir þig miklu máli. Byrjaðu á því að gefa þér 6 mánuði til að ná markmiði þínu. Staldraðu þá við til að endurmeta bæði plan og áskoranir og haltu svo ótrauð/ur áfram.

Ekki hugsa til baka. Gleymdu fyrri tilraunum. Ekki láta ótta eða skömm slá þig út af laginu. Það skiptir nákvæmlega engu máli þó þú hafir reynt áður – jafnvel hundrað sinnum. Það sem skiptir máli er að þú ert núna að reyna aftur. Og aftur. Það er enginn að telja – nema þú. Og nú er talningunni lokið.

Kannski er þetta glugginn þinn til að bæta líf þitt á róttækan hátt. Finna þig, heilsuna og gleðina í lífinu. Stattu upp. Finndu kraftinn. Leggðu af stað – sama hvað. Núna er nákvæmlega rétti tíminn. Og já, mundu – þú ræður!

Heilsukveðja,
Beta Reynis

Aftur á bloggið

Hvað fannst þér um þessa grein?