Í morgun fór ég á kaffihús og pantaði mér kaffi. Á afgreiðsluborðinu var stór skál, fyllt litlum flöskum af grænum safa sem lágu þar í klakabaði og biðu eftir því að þeim væri kippt með í leiðinni. Ég varð hugsi. Þetta er orðið svo sjálfsagt. Grænn safi með öllu. En stundum spyr ég mig: eru þessir grænu safar í raun og veru hollustudrykkur – eða mögulega skaðvaldur?
Við höfum öll heyrt hversu mikilvægt það sé að borða meira grænmeti og drekka hreinsandi safa. En sem næringarfræðingur sem leggur áherslu á gagnrýna hugsun, velti ég því oft fyrir mér hvort þessir „hreinsandi“ safar séu í raun eins hollir og við höldum.
Hollt grænmeti – en í hvaða magni?
Það er löngu staðfest að grænmeti og ávextir eru grunnstoðir góðrar heilsu. En þegar við drekkum þau í formi safa – oft í miklu magni og daglega – hættum við að borða eðlilega og getum jafnvel farið að neyta ákveðins efnis í of miklu magni, þ.e. í magni sem líkaminn ræður illa við. Oxalsýra er eitthvað sem þú þarft að vita meira um og skilja betur.
Hvað er oxalsýra – og hvers vegna skiptir hún máli?
Oxalsýra (e. oxalic acid) er náttúrulegt efni sem finnst í mörgum plöntum, sérstaklega í dökkgrænu, laufmiklu grænmeti eins og spínati og grænkáli en einnig í öðru grænmeti eins og t.d. rauðrófum og rósakáli. Oxalsýra er ekki skaðleg í litlu magni en of mikil inntaka eða skertur útskilnaður getur valdið uppsöfnun og leitt til ýmissa óþæginda.
Oxalsýra og bólgur – hvernig tengist þetta tvennt?
Þegar oxalsýra safnast upp í líkamanum getur hún:
1. Myndað kalsíumoxalatkristalla, sem setjast í vefi (sérstaklega liðamót og nýru) og kveikja staðbundna bólgu.
2. Örvað ónæmiskerfið, sem bregst við með bólgusvari – jafnvel án sýnilegrar sýkingar.
3. Ert slímhúð og taugakerfi, sem leiðir til sársauka og bólgueinkenna.
4. Truflað næringarupptöku – sérstaklega á kalki og járni – og þannig aukið álag á líkamskerfi sem þarf nauðsynlega næringu til að viðhalda jafnvægi og bólguhömlun.
Þetta getur leitt til þess að þeir sem glíma við bólgusjúkdóma eins og liðagigt, þvagsýrugigt, sjálfsónæmi, meltingarsjúkdóma eða vanvirkan skjaldkirtil, versni af of mikilli neyslu grænna safa.
Hversu mikið er of mikið?
Ég mæli með því að fólk neyti ekki meira en 250 mg af oxalsýru á dag. Til samanburðar inniheldur 1 bolli af spínati um 650 mg af oxalsýru – og í flestum grænum söfum er magn hráefna vel yfir því. Tveir stórir safadrykkir á dag geta því leitt til þess að einstaklingar fái meira en tvö- til þrefaldan dagskammt oxalsýru – dag eftir dag.
Hverjir þurfa að gæta sín sérstaklega?
· Fólk með bólgusjúkdóma (liðir, melting, húð)
· Þeir sem hafa fengið nýrnasteina
· Einstaklingar með skjaldkirtilsvanda
· Þeir sem eru með meltingarvandamál eins og IBS, Crohn's eða lekan þarm
· Fólk sem drekkur græna safa eða boost daglega, sérstaklega í föstum
Hvað getur hjálpað?
· Gerjaður matur og góðgerlar (t.d. súrkál, kombucha, probiotics) – sumar tegundir baktería hjálpa við niðurbrot oxalsýru.
· Gufusjóða oxalsýruríkt grænmeti til að draga úr magni.
· Hófsemi – drekka græna safa af og til, ekki daglega í miklu magni.
· Borða fjölbreytt – ekki bara laufgrænt heldur líka rótargrænmeti, heilkorn, belgjurtir og prótein.
Niðurstaðan: Gagnrýnin hugsun á grænu trendin
Grænir safar eru alls ekki alslæmir– en þeir eru kannski ekki þeir töfradrykkir sem við teljum þá vera. Ef við neytum þeirra í hófi, sem hluta af fjölbreyttu fæði, geta þeir sannarlega verið góð viðbót við daglega fæðuinntöku okkar. En ef við gerum þá að daglegri rútínu, án þess að hlusta á líkamann, geta þeir aukið bólgur í líkamanum og valdið ýmsum næringartengdum vandamálum.
Heilbrigði snýst fyrst og fremst um að vita hvað hentar okkar eigin líkama og þá er alltaf mikilvægt að velja með skynsemina að leiðarljósi.