Getur nikkel í mat verið að valda þér vanlíðan og neikvæðum einkennum sem enginn skýring finnst á?
Undanfarin ár hef ég sérhæft mig í að vinna með einstaklingum sem grunar að þeir glími við nikkelóþol – ástand sem getur haft djúpstæð og neikvæð áhrif á líðan. Nikkelóþol er oft vanmetið vandamál en með markvissri vinnu þar sem mataræðið er tekið til endurskoðunar, sem og fræðsla aukin um áhrif nikkels í fæðu, hef ég séð marga ná ótrúlegum bata og betri líðan. Hjá þeim einstaklingum sem þola illa nikkel í mat, getur það breytt öllu að draga úr magni nikkels. Meltingin verður hraðari og léttari, mígrenisköstum fækkar, efnaskiptin verða betri, húðútbrotum fækkar og líðan almennt batnar á allan hátt.
Óþol sem fer huldu höfði
Nikkelóþol er ekki það fyrsta sem flestir hugsa um þegar líkaminn sendir frá sér óljós einkenni. Samt bendir margt til þess að það sé algengara en áður var talið – jafnvel miklu algengara. Nikkel finnst í flestum þeim matvælum sem við jafnan tengjum við hollustu og heilbrigði, og því getur verið erfitt að átta sig á orsökinni.
Einkenni nikkelóþols eru mismunandi, en meðal þeirra algengustu eru:
• Húðútbrot og kláði
• Magaverkir, ógleði og uppþemba
• Þreyta og höfuðverkur
• Óregluleg hægðalosun eða niðurgangur
Þessi einkenni geta komið fram nokkrum klukkustundum eftir máltíð og því oft erfitt að tengja þau matnum með beinum hætti.
Óþol eða ofnæmi – hver er munurinn?
Ofnæmi er brátt og sterkt ónæmissvar líkamans, og getur verið lífshættulegt. Óþol er hins vegar ekki bein ónæmissvörun, heldur oft tengt meltingar- eða efnaskiptakerfinu og lýsir sér með þrálátum, oft á tíðum lúmskum einkennum. Það getur því tekið tíma að greina tengslin – ég tala nú ekki um þegar við erum að borða mat sem við höldum að sé hollur.
Hvað er nikkel og hvar finnst það?
Nikkel er málmur sem finnst í náttúrunni og er notaður í ýmsar vörur – allt frá skartgripum yfir í eldunaráhöld. En það er líka að finna í matvælum eins og súkkulaði, hnetum, baunum, höfrum, ákveðnum ávöxtum (hindber, ananas, rúsínur, þurkkaðir ávextir, avakadó), grænmeti og sumu sjávarfangi. Allt er þetta fæða sem getur innihaldið hátt hlutfall nikkels.
Leiðin til bata
Ef þig grunar að nikkelóþol geti verið undirliggjandi þáttur í þinni vanlíðan, er fyrsta skrefið að fá greiningu og vinna svo áfram með fagaðila. Með réttri næringarstjórnun – sem útilokar nikkelríkar fæðutegundir á meðan líkaminn jafnar sig – þá má draga verulega úr einkennum og bæta lífsgæði.
Hlustaðu á líkamann þinn og ef hann er að kvarta reyndu að finna lausn.
Ráðgjöf hjá sérfræðingi getur hjálpað til við að tryggja að mataræði þitt verði áfram fjölbreytt og næringarríkt.
5 Álit
Sæl Ingibjörg
hér er mitt svar til þín
Ráðlegg þér að fá tíma hjá fagaðila og fá góðar upplýsingar um þína stöðu og hvort þú sért með nikkel óþol og hvaða matartegundir eru hvað verstar fyrir þig.
Kær kveðja, Beta Reynis næringarfræðingur
Sæl Gunnhildur,
Hér mitt svar til þín!
Það er hægt að mæla ákveðna þætti tengda fæðuóþoli í blóðprufu, en oft reynist best að greina þetta með aðstoð fagaðila – með því að fara yfir heilsusögu, einkenni og skoða mataræði með hjálp matarlista.
Einkennin eru oft nokkuð augljós og lagast gjarnan þegar mataræðið er aðlagað – en það sem gerir þetta flókið er að viðbrögð við nikkel fæðutegundum eru mjög einstaklingsbundin. Það sem veldur óþægindum hjá einum þarf ekki að hafa nein áhrif á annan, þess vegna verður þetta oft á á tíðum ruglingslegt og þess vegna er persónuleg nálgun lykilatriði.
Kær kveðja, Beta Reynis
Finnst greinin mjög athyglisverð og hvar og hvernig er hægt að fá upplýsingar um það hvort ég sé með nikkel ofnæmi.
Mjőg athygglisvert.
Èg er med nikkelofnaemi, og er ad spà ì hvad èg mà borda?
Mjög áhugaverð grein.